Systur hlaupa í minningu Gunnars Karls

Systurnar Eyrún og Hrefna Haraldsdætur safna þessa dagana áheitum fyrir Reykjadal í á hlaupastyrkur.is í minningu bróður síns, Gunnars Karls Haraldssonar sem lést úr krabbameini fyrr á árinu. Gunnar Karl var einstakur vinur og velunnari Reykjadals. Hann kom ungur í sumardvöl og sumrin 2018 og 2019 starfaði hann sjálfur í Reykjadal.

Gunnar Karl tók þrisvar sinnum þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Jákvæðni hans og drifkraftur vakti athygli og hann safnaði áheitum fyrir Reykjadal. Árið 2017 skoraði hann á félaga sína, Heimi Hallgrímsson, Kjartan Ólafsson og Sigurjón Lýðsson, að koma með sér rúllandi 10 km. Þau sem stóðu í klappliðinu á hliðarlínunni minnast þessa skemmtilega hlaups þar sem Gunnar Karl rúllaði hress og kátur, fullur af orku framhjá en þreytan leyndi sé ekki hjá félögunum. Það var mikið hlegið, gleðin og jákvæðni Gunnars Karls smitaði út frá sér. Bónusinn var svo að þeir félagar söfnuðu tæplega 650 þúsund kr. fyrir Reykjadal. Gunnar Karl hafði sett markið á safna hálfri milljón en árið áður hafði hann safnað 450 þúsund kr. einn síns liðs.

Við hvetjum ykkur til að heita á systur Gunnars Karls, Eyrúnu og Hrefnu.

Hér er áheitasíða Eyrúnar: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/673-eyrun-haraldsdottir

Hér er áheitasíða Hrefnu: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/685-hrefna-haraldsdottir