„Þörfin er augljóslega til staðar þar sem aðsóknin var svo mikil”

Fjör í sundlauginni í Reykjadal í Mosfellsdal
Fjör í sundlauginni í Reykjadal í Mosfellsdal

Í síðustu viku lauk sumarstarfsemi Reykjadals. Gestir Reykjadals í Mosfellsdal voru kvaddir á miðvikudaginn og á föstudaginn lauk ævintýranámskeiði Reykjadals í Hafnarfirði. Aldrei hafa jafn margir komið í sumardvöl eins og í sumar. Tekið var á móti um 500 einstaklingum um land allt vegna stuðnings félagsmálaráðuneytisins.

„Það var frábært að hitta alla vini okkar aftur í sumar eftir krefjandi vetur. Við eignuðumst líka fullt af nýjum vinum, við bættum við viku í sumardvölinni í sumar og gátum því tekið á móti fjölda nýrra vina. Við vorum líka með fjölbreytta valkosti út um allt land.“

Enginn greindist með Covid eftir að smit kom upp

Einn greindist með Covid í Reykjadal fyrr í þessum mánuði og þurftu gestir Reykjadals og starfsfólk að fara í sóttkví. Til allrar hamingju náði smitið ekki að dreifa sér og enginn greindist úr hópnum. Vonast var til þess að hægt væri að opna Reykjadal aftur þegar allir höfðu lokið sóttkví svo hægt væri að ljúka dvölinni. Á föstudaginn var opnað í Reykjadal með pompi og prakt og gestirnir dvöldu fram á miðvikudag.

„Okkur langaði að opna með stæl. Við fengum hoppukastala frá Skátalandi yfir alla helgina. Okkur var mjög létt þegar enginn greindist með smit og við höfðum allan tímann lagt áherslu á að reyna að opna aftur til þess að gestirnir sem voru í dvöl hjá okkur fengju að klára dvölina með ánægjulegum hætti,“ segir Margrét Vala.

Telur mikilvægt að áfram verði boðið upp á fleiri valkosti

Annað árið í röð veitti félagsmálaráðuneytið Reykjadal styrk til að bjóða upp á fleiri valkosti en Reykjadal í Mosfellsdal vegna félagslegra áhrifa Covid 19. Margrét Vala segir að það sé greinilega þörf á fleiri valkostum, aðsóknin sýni það:  

„Þetta skiptir náttúrulega öllu máli. Þetta eru svo ólíkir hópar með ólíkar stuðningsþarfir og þess vegna skiptir rosalega miklu máli að það fái allir tækifæri á að koma í sumardvöl. Þörfin er augljóslega til staðar þar sem aðsóknin var svo mikil. Við erum ótrúlega ánægð að hafa geta mætt öllum þessum hópum í sumar og ég tel mjög mikilvægt að það verði gert áfram. Aðsóknin í þessar sumardvalir var svo mikil, það segir okkur að þörfin er mikil.“

 Á Instagramsíðu Reykjadals er búið að birta myndir frá sumrinu:

 

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by Reykjadalur (@reykjadalur1)