Karfan þín

Karfan er tóm.

Við erum Gló

Bergljót Borg, framkvæmdastjóri Gló stuðningsfélags
Bergljót Borg, framkvæmdastjóri Gló stuðningsfélags

Það gleður okkur að tilkynna að Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur fengið nýtt nafn – Gló stuðningsfélag.

Félagið fagnaði nýju nafni og ásýnd í Reykjadal í Mosfellsdal laugardaginn 2. nóvember sl. þar sem stemningin glóði af gleði, hlýju og breiðum brosum.

Guðjón Smári, útvarpsmaður og Idol-stjarna sem starfaði sjálfur í Reykjadal um árabil, var kynnir viðburðarins og Unnsteinn Manuel tók lagið við frábærar undirtektir. Gestaráð Reykjadals tók þátt í veislunni og kynntu sitt nýja heiti sem Gló ungmennaráð. Einnig fluttu ávörp Bergljót Borg, framkvæmdastjóri, og Jórunn Edda Óskarsdóttir, formaður stjórnar Gló.

Þegar félagið var stofnað var lítil endurhæfing til staðar á Íslandi. Samfélagið gerði ekki ráð fyrir fólki með hreyfihömlun — og hugmyndir um þátttöku, aðgengi og mannréttindi voru ekki áberandi. En stofnendur félagsins sáu það sem aðrir sáu ekki. Þau trúðu því að fötluð börn ættu rétt á tækifærum — og þau létu verkin tala,” sagði Jórunn Edda, formaður stjórnar Gló.

Nýtt nafn – sami eldmóðurinn

Við lítum til baka með þakklæti og horfum bjartsýn fram á veginn. Með nýja nafninu og nýrri ásýnd kemur ferskur tónn sem endurspeglar breyttar áherslur og viðhorf í nútímasamfélagi. Við byggjum áfram á drifkrafti, eldmóði og hlýju sem hefur einkennt starf félagsins í rúm 70 ár – og höldum áfram að ryðja braut í þjónustu við fötluð börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra, breyta viðhorfum og draga úr samfélagslegum hindrunum.

Markmið okkar er skýrt – að öll börn og ungmenni fái að láta ljós sitt skína.

Framtíðin glóir áfram

Gló stuðningsfélag mun áfram leggja sitt af mörkum til að efla þátttöku barna og ungmenna með fjölbreyttar áskoranir og stuðningsþarfir. Við styðjum sérstaklega við tækifæri til þátttöku í tómstundum og menningu og til að rækta sjálfsmynd, hæfileika og færni. Mikilvægur liður í því er öflug fjölskyldumiðuð þjónusta á Æfingastöðinni og fjölbreytt tómstundatækifæri í Reykjadal.

Við vonum að samfélagið taki nýja nafninu fagnandi – saman höldum við áfram að skapa tækifæri í stað takmarkana.

Við þökkum öllum fyrir stuðning og velvild í gegnum árin. Stuðningur ykkar verður alltaf okkar styrkur! 💚

Sjá nánar á nýrri síðu félagsins: www.glofelag.is