Yfir fimmtíu manns dönsuðu sleitulaust í allt að 6 tíma fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra

Ljósmynd: Julio Gómez Deras
Ljósmynd: Julio Gómez Deras

Laugardaginn 25. maí fór fram dansmaraþon í annað skipti á Íslandi. Viðburðurinn fór fram í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg þar sem fjöldi fólks dansaði í allt að 6 klukkustundir, eða frá kl. 11-17. Markmiðið var að þátttakendur héldu dansinum gangandi eins lengi og geta hvers og eins leyfir.

Dansmaraþon er góðgerðarviðburður þar sem fólk með mismunandi líkamlega hreyfigetu og upplifanir hittist á dansgólfinu og dansar saman fyrir jöfnum tækifærum og góðu málefni. Dansmaraþonið fagnar fjölbreytileika í dans- og hreyfimenningu óháð líkamlegri hreyfigetu. Söfnunin í ár fór fram með þátttökugjaldi og frjálsum framlögum. Samtals söfnuðust 130.000 krónur sem renna óskiptar til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Margir sýndu einnig stuðning í verki með sjálfboðastörfum og gjöfum. Dansararnir Ásrún Magnúsdóttir og Mari Ann Valkna sinntu dansvörslu, Bjartey Elín Hauksdóttir og Steinunn Sigþrúðardóttir voru gestgjafar viðburðarins og plötusnúðarnir MAR!A, ELYSIUM og DFYP (Don't Forget You're Precious) héldu lífi í dansgólfinu með orkumikilli tónlist yfir daginn. Skipulag var í höndum Juulius Vaiksoo í samstarfi við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Listasafn Íslands, Dansverkstæðið, List án landamæra og Sõltumatu Tantsu Lava (STL) í Eistlandi. Aðrir stuðningsaðilar voru Bíó Paradís, Brút, Dunce magazine, Ölgerðin, Mikado, Perlan, Sky Lagoon, Tjarnarbió og Wasteland. 

SLF þakkar öllum sem þeim sem tóku þátt í dansinum eða komu að Dansmaraþoninu 2025 með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir ykkar framlag.