SÓL ÉG SÁ eftir Ólöfu Nordal er Kærleikskúla ársins 2019

Ólöf Nordal er listamaður Kærleikskúlunnar 2019. Verkið heitir SÓL ÉG SÁ. Ólöf er afkastamikill listamaður og eru verk hennar fjölbreytt. Hún er höfundur margra útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi, má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Vitid ér enn - eda hvat? í anddyri Alþingishússins, Bríetarbrekku við Þingholtsstræti og umhverfislistaverkið Þúfu á Granda. Nú stendur yfir yfirlitssýning í Listasafni Reykjavíkur á verkum Ólafar. Titill sýningarinnar er ÚNGL og spannar tæplega þrjátíu ára feril hennar.

Ólöf hefur gefið Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra þetta flotta verk og allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar 2019 rennur til sumarbúðanna Reykjadals, þangað sem fötluð börn og ungmenni koma og skemmta sér án hindrana.

Sala Kærleikskúlunnar skipar stóran sess í fjáröflunarstarfi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þetta er í sautjánda sinn sem félagið gefur út Kærleikskúluna en margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar hafa lagt félaginu lið með því að skapa listaverk á glerkúluna.

Kemur í takmörkuðu upplagi
Kærleikskúlan var fyrst gefin út árið 2003 en myndin sem prýðir kúluna heitir “2 málarar” og er úr röð verka sem Erró gerði árið 1984. Hugmyndin um Kærleikskúluna er hugarsmíð Evu Þengilsdóttur þáverandi markaðsstjóri Styrktarfélagsins. Nafn Kærleikskúlunnar er táknrænt en markmið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna.

Kærleikskúlan er blásin glerkúla tær eins og kærleikurinn með borða í rauðum lit, lit lífskrafts og gleði, jóla og vináttu. Eins og mennirnir eru engar tvær kúlur nákvæmlega eins en allar fallegar, hver á sinn hátt.

Kærleikskúlan kemur í takmörku upplagi og bætist Kærleikskúla ársins 2019, SÓL ÉG SÁ, í fjölbreytt safn af Kærleikskúlum. Listamennirnir sem hanna kúlurnar hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Sala Kærleikskúlunnar hefst 7. desember og stendur yfir til 21. desember. Nánar á www.kaerleikskulan.is

Fyrri Kærleikskúlur

2003 Erró

2004 Ólafur Elíasson

2005 Rúrí

2006 Gabríela

2007 Eggert Pétursson

2008 Gjörningaklúbburinn

2009 Hreinn Friðfinnsson

2010 Katrín Sigurðardóttir

2011 Yoko Ono

2012 Hrafnhildur Arnardóttir

2013 Ragnar Kjartansson

2014 Davíð Örn Halldórsson

2015 Ragna Róbertsdóttir

2016 Sigurður Árni Sigurðsson

2017 Egill Sæbjörnsson

2018 Elín Hansdóttir

Handhafi kúlunnar mikilvæg fyrirmynd

Kærleikskúlan hefur frá upphafi verið afhjúpuð við formlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur og stjórn Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra velur handhafa kúlunnar ár hvert. Handhafi kúlunnar er einhver sem hefur unnið mikilvægt starf í þágu fatlaðra eða er framúrskarandi fyrirmynd.

2003– Ólafur Ragnar Grímsson

2004– Freyja Haraldsdóttir

2005 - Bjarki Birgisson, Guðbrandur Einarsson og Tómas Birgir Magnússon

2006 - Evu Þórdísi Ebenezersdóttur formaður NÝ-UNG

2007 - Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

2008– Halaleikhópurinn

2009– Embla Ágústsdóttir

2010– Valgerður Jónsdóttir og bjöllukórinn

2011– Leifur Leifsson

2012– Jón Margeir Sverrisson

2013– Hrefna Haraldsdóttir

2014– Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur

2015– Ólafur Ólafsson

2016– Peggy Helgason

2017 – Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar

2018 – Anna Karólína Vilhjálmsdóttir