Ráðstefna Æfingastöðvarinnar: Dýr í starfi með fólki

Dýr í starfi með fólki

Ráðstefna Æfingastöðvarinnar: Dýr í starfi með fólki verður haldin í Reykjadal í Mosfellsbæ laugardaginn 14. september 2024.

Dagskrá og ráðstefnugjald verður birt fljótlega. 

 

Ráðstefnan er ætluð þeim sem vilja fræðast um kosti þess að styðjast við dýr í starfi. Hér er um að ræða einstakt tækifæri fyrir áhugasama til að koma saman og kynnast betur þessari gerð nálgunar og koma á tengslum við fólk sem vinnur með dýr í starfi sínu.

Þjónusta með aðstoð dýra hefur á síðastliðnum áratugum fest sig í sessi víða um heim enda hafa rannsóknir sýnt fram á gagnsemi hennar. Margar starfstéttir nýta sér þess nálgun og má þar helst nefna iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, kennara, talmeinafræðinga, tannlækna, þroskaþjálfa hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Nærvera dýrsins og þátttaka hefur sýnt hafa jákvæð áhrif á líðan og þátttöku.

Um er að ræða eins dags ráðstefnu með fjölbreyttum og áhugaverðum erindum þar sem fagfólk mun koma og segja frá hvernig það hefur stuðst við hunda og hesta í starfi sínu.

Meðal fyrirlesara eru Line Sandstedt og Norunn Kogstad. Line Sandstedt starfar hjá International Center for Anthrozoology (IcofA) sem hefur verið leiðandi m.a. í kennslu, þjálfun skipulagðrar íhlutunar með aðstoð dýra í Noregi og víðar. Auk þess sinnir ICofA kennslu og þjálfun, skapgerðarmats og úttekt á dýrum sem ætluð eru til að starfa með fólki. Line hefur leitt regluleg námskeið á vegum Æfingastöðvarinnar, Íhlutun með aðstoð hundsNorunn Kogstad, geðlæknir, stofnaði og rekur Lundehagen Gård í Noregi þar sem fram fer fræðsla, meðferðir og rannsóknir á áhrifum hesta í starfi með fólki.  Norunn hefur sinnt geðlækningum með aðstoð hesta, staðið fyrir og veitt fræðslu fyrir fagfólk um að styðjast við hesta í starfi við bæði á Noregi og víða erlendis. Norunn er H.E.A.L. leiðbeinandi og með EAGALA réttindi. Norunn mun einnig leiða grunnnámskeiðið Að styðjast við hesta í starfi með fólki í kjölfar ráðstefnunnar. Skráning á námskeiðið hér

Ráðstefnan er haldin af Æfingastöðinni sem er helsta endurhæfingastofnun landsins fyrir börn og er hlutverk hennar að efla börn og ungmenni til almennrar þátttöku með það að marki að bæta lífsgæði þeirra. Á Æfingastöðinni starfa teymi sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa og hefur í yfir18 ár verið starfrækt íhlutun þar með aðstoð dýra.