Karfan er tóm.
Line Sandstedt starfar hjá International og Norwegian Center for Anthrozoology þar sem hún hefur yfirumsjón með kennslu stofnananna. Line hefur alltaf verið heilluð af sambandinu milli hunda og manna. Hún er með framhaldsnám í sérkennslufræðum og hefur starfað við hundaþjálfun frá árinu 1990. Line heldur ýmiss konar námskeið fyrir hundaeigendur í Noregi og víðar og tekur þátt í vinnuprófum með eigin hundum. Line er með dómararéttindi Personality Assesment for Domesticated Animals og metur skapgerð hunda sem ætlaðir eru til starfa með fólki innan íhlutunar með aðstoð dýra (e. animal assisted intervention [AAI]. Auk þess kennir hún hjá Lífvísindaháskólanum í Noregi í námi um íhlutun með aðstoð hunda sem er ætlað fagfólki. Line hefur í fjölda ára verið í forsvari fyrir óhefðbundna nálgun í grunnskólum með því að styðjast við hunda í kennslu. Hún heldur fyrirlestra um AAI víða um heim ásamt því að halda námskeið í hundaþjálfun á Norðurlöndunum. Síðustu ár hefur starf hennar að miklum hluta beinst að því að þjálfa AAI-teymi í Noregi, Póllandi, Íslandi og Búlgaríu.
Line verður með tvö erindi á ráðstefnunni. Í því fyrra fjallar hún almennt um íhlutun með aðstoða dýra, fræðilegan bakgrunn þess og notkun innan heilbrigðis, menntunar og félagsgeirans og í síðara erindinu mun hún segja frá kennslu með aðstoð hunda.
Hilde Ulvatne Marthinsen er lífeindafræðingur að mennt, með meistaragráðu í lífefnafræði og doktorsgráðu í örverufræði. Hilde fékk leyfi sem 1. stigs leiðbeinandi af norska kennelklúbbnum árið 1991, 2. stig árið 1997 og 3. stig árið 2000. Hún hefur haldið fjölda námskeiða, vinnusmiðja og annarra viðburða sem kenna hundaeigendum að þjálfa hunda sína fyrir þátttöku í hinum ýmsu hundasportum sem og almennri færni í daglegu lífi heimilishunds. Frá árinu 2009 hefur hún rekið eigið fyrirtæki, Hamarhundeskole. Hilde hefur einnig víðtæka reynslu af þjálfun og keppni í mismunandi íþróttum með eigin hundum.
Hilde fylgist vel með þróun námskenninga og aðferða við að þjálfa dýr og hefur bæði verklega og fræðilega reynslu af viðfangsefninu. Menntun hennar í líffræði gefur henni víðtæka innsýn í almenna atferlisfræði og lífeðlisfræði og hvernig þessi svið tengjast og hafa áhrif á hvort annað.
Fyrirlestur hennar mun fjalla um hvernig þjálfunaraðferðir geta haft áhrif á heilsu og velferð dýra.
Starfar á Æfingastöðinni sem yfiriðjuþjálfi. Æfingastöðin er stærsti þjónustuaðili fyrir iðju- og sjúkraþjálfun barna hér á landi. Gunnhildur er með meistarapróf í heilbrigðisvísindum ásamt því að hafa menntað sig í íhlutun með aðstoð dýra við Lífvísinda Háskólanum í Noregi (NMBU). Í starfi sínu styðst Gunnhildur við bæði hund og hesta. Hundurinn hennar Skotta er fyrsti sérþjálfaði og vottaði þjónustuhundurinn hér á landi en Skotta stóðst PADA sem er viðurkennt skapgerðarmat (Personality test for dogs in animal assisted intervention) og verklegt próf á vegum ICofA. Gunnhildur tók þátt í að stofna og situr í stjórn Hjálparhunda Íslands, félagasamtaka sem hafa það að markmiði að bæta aðgengi eigenda hjálparhunda hér á landi og ýta undir færni og velferð hundana.
Í erindi sínu mun Gunnhildur fjalla um hvernig hundur getur stutt iðjuþjálfa í starfi með börnum, undirbúningi þess og framkvæmd.
Guðbjörg er sérfræðingur í sjúkraþjálfun barna með víðtæka reynslu og störf með börnum með fjölbreyttar þarfir á barnadeildum sjúkrahúsa, innan heilsugæslunnar og við ráðgjafastöð ríkisins í Noregi. Hún hefur lokið meistaranámi í heilbrigðisvísindum í Noregi og lýðheilsuvísindum á Íslandi. Guðbjörg hefur starfað á Æfingastöðinni frá árinu 2001 þar sem hún ásamt Þorbjörgu Guðlaugsdóttur sjúkraþjálfara kom á laggirnar sjúkraþjálfun á hestbaki og hefur hún haldið utan um þá starfsemi síðastliðin 18 ár. Guðbjörg og Þorbjörg voru brautryðjendur hér á landi í þessari tegund íhlutunar sem var viðurkennd af þáverandi heilbrigðisráðherra á Íslandi sem sérhæfð sjúkraþjálfun árið 2007. Guðbjörg og Þorbjörg luku réttindanámi í Svíþjóð þar að lútandi sama ár og skipulögðu síðan réttindanám fyrir sjúkraþjálfara á Íslandi . Sjúkraþjálfun á hestbaki hefur skilað jákvæðum árangri með fjölbreyttum hópi barna.
Í erindi sínu mun Guðbjörg fjalla um sjúkraþjálfun á hestbaki á Æfingastöðinni sögu, rannsóknir og framtíð.
Sigurður Rúnar útskrifaðist frá Tannlæknadeil Háskóla Íslands árið 1986 og starfaði fyrstu ár eftir útskrift sem almennur tannlæknir á ýmsum stofum. Árið 1991 fór Sigurður til Chapel Hill í Bandaríkjunum til að stunda samsett nám og þjálfun þar sem hann lauk sérhæfingu í barnatannlækningum frá UNC School of Dentistry, doktorsnámi í faraldsfræði frá University of North Carolina og meistarnámi í heilbrigðisstefnu/stjórnun frá UNC Gillings School of Public Health. Þá hélt hann aftur heim til Íslands og stofnaði barnatannlækningastofu í Einholti í Reykjavík, sem varð forveri Hlýju sem hann stofnaði og starfa á í dag. Auk þess var Sigurður Rúnar deildastjóri í barnatannlækningum við Tannlæknadeild HÍ og hafði þar umsjón með klínískri og bóklegri kennslu tannlæknanema og nema á meistara- og doktorsstigi. Sigurður er formaður Félags íslneskra barnatannlækna og hefur setið í stjórn Félags sérmenntaðra tannlækna og sem ritstjóri Tannlæknablaðsins. Sigurður er höfundur fjölmargra fræðigreina sem birst hafa bæði í innlendum og erlendum fagtímaritum.
Sigurður Rúnar er nýlega fluttur aftur heim til Íslands eftir að hafa starfað sem prófessor við Háskólann í Norður Karolínu þar sem hann stýrði sérnámi í barnatannlækningum og meðal verkefna þar var að styðjast við sérþjálfaðan golden retriever hund á tannlæknastofunni. Í erindi sínu mun Sigurður segja frá starfi sínu í Bandaríkjunum með hundinum Grayson.