Karfan þín

Karfan er tóm.

Eflum börn til þátttöku

Framtíðin er núna!
Dagurinn í dag leggur grunn að morgundeginum.
Styðjum börn til að ná fram því sem þau vilja og geta í dag.

 

Æfingastöðin er miðstöð þjónustu og þekkingar í hæfingu og endurhæfingu fyrir börn og ungmenni.

Á Æfingastöðinni starfa sjúkra- og iðjuþjálfar með víðtæka reynslu af þjálfun barna og ungmenna. Veitt er ráðgjöf og þjálfun með það að markmiði að efla þátttöku í daglegu lífi og auka þannig lífsgæði barnsins og fjölskyldunnar.
Auk þess sækir afmarkaður hópur fullorðinna þjónustu á Æfingastöðina.

Í náinni samvinnu við fjölskyldu barnsins eru sett einstaklingsmiðuð markmið sem taka mið af aðstæðum, áhuga og framtíðarsýn einstaklingsins og fjölskyldunnar. 

Til þess að sækja iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun á Æfingastöðinni þarf að hafa beiðni frá lækni. Nánar um þjónustuferlið hér. 

Fjölbreytt og einstaklingsmiðuð þjálfun

Þjálfunin er miðuð við þörf hvers og eins og er unnin í nánu samstarfi við börnin og fjölskyldur þeirra. Markmiðið er að auka færni barnsins til að það eigi auðveldara með þátttöku í leik og daglegum viðfangsefnum sem hafa þýðingu fyrir það.

Þau úrræði sem eru í boði í sjúkra- og iðjuþjálfun eru af margvíslegum toga. Þau geta verið í formi þjálfunar, ráðgjafar, eftirfylgni og útvegun stoð- og  hjálpartækja. Boðið er upp á einstaklingsþjálfun og fjölbreytta hópþjálfun ásamt æfingum í sundlaug og íhlutun með aðstoð dýra. 

Þjónustan fer fram á Æfingastöðinni eða í nánasta umhverfi barnsins, svo sem í leikskólanum, skólanum eða á heimili þess.

Þjálfun fullorðinna

Æfingastöðin sinnir einnig afmörkuðum hópi fullorðinna einstaklinga, sem notið hafa þjónustu frá barnæsku. Þá er boðið upp á þjálfun fyrir fólk með Parkinson.