Handhafar Kærleikskúlunnar frá upphafi

 

Afhending Kærleikskúlunnar 2003Ár hvert velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Hún er veitt framúrskarandi fyrirmynd í viður­kenn­ing­ar­skyni fyr­ir störf í þágu fatlaðs fólks. Kærleikskúlur Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra eru fjölbreytt safn listaverka eftir fremstu listamenn þjóðarinnar til styrktar starfsemi sumarbúðanna Reykjadal. 

Hér má sjá handhafa Kærleikskúlunnar frá upphafi.

2003 ERRÓ – Ólafur Ragnar Grímsson 

1. desember árið 2003 var fyrsta Kærleikskúlan frá upphafi afhent við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur. Var það forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sem tók við fyrstu Kærleikskúlunni úr hendi Steinunnar Ásu Þorvaldsdóttur nemanda og bjöllukórsleikara.  

 

2004 Ólafur Elíasson – Freyja Haraldsdóttir

Freyja Haraldsdóttir veitti fyrstu Kærleikskúlunni 2004 viðtöku úr hendi herra Karls Sigurbjörnssonar biskups yfir Íslandi. Þegar ákveða átti hverjum skyldi færð fyrsta Kærleikskúla ársins 2004 var nafn Freyju Haraldsdóttur nefnt hvað eftir annað vegna þess hvern mann hún hefur að geyma og þess sem hún hefur gefið öðrum. Því hún hefur með viðhorfum sínum til lífsins, viðmóti og persónutöfrum haft mikil áhrif á alla þá sem tækifæri hafa fengið til að kynnast henni. Hún er afrekskona í mörgum skilningi, hún hefur með einstöku hugarfari og hjálp sinnar góðu fjölskyldu tekist á við mikla erfiðleika með sigri andans. 


2005 Rúrí - Bjarki Birgisson, Guðbrandur Einarsson og Tómas Birgir Magnússon

Listasafn Reykjavíkur var klætt í hátíðarbúning þann 1. desember 2005, en þá afhenti frú Dorrit Moussaieff þar fyrstu Kærleikskúluna 2005, þeim Bjarka Birgissyni, Tómasi Birgi Magnússyni og Guðbrandi Einarssyni. Þremenningarnir sem gengu hringinn í kringum landið undir kjörorðinu ,,Haltur leiðir blindan". Á sinni erfiðu ferð vildu þeir létta byrðar annarra með því að vekja athygli á lífi og aðstæðum barna með sérþarfir í þeirri von að það yrði lóð á vogarskálarnar í baráttunni fyrir betra lífi, auknum möguleikum og réttindum fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.


2006 Gabríela Friðriksdóttir - Evu Þórdísi Ebenezersdóttur formaður NÝ-UNG

NÝ - UNG hópurinn hlaut Kærleikskúluna 2006 og var það Jóhanna Þórkatla Eiríksdóttir, sunddrottning og systurdóttir Gabríelu, sem afhenti kúluna að þessu sinni. Unga fólkið í NÝ-UNG er öðrum verðug fyrirmynd, en það hefur af mikilli hugkvæmni, jákvæðni og krafti unnið að því að breyta viðhorfum fólks. Það berst fyrir betra lífi, auknum möguleikum og réttindum fyrir fólk með fötlun. Hópurinn hefur farið óhefðbundnar leiðir í baráttu sinni, haft húmorinn að vopni og m.a. staðið fyrir meðmælagöngum, sérmerkt bílastæði fyrir ófatlaða, veitt hressingarverðlaun, allt í þeim tilgangi að vekja fólk til umhugsunar - meðvitundar um að samfélagið er okkar allra.


2007 Eggert Pétursson - Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfsbjargar, og höfundur gjörningsins Tökum höndum saman hlaut Kærleikskúluna 2007. Kolbrún Dögg tók við kúlunni úr hend Frú Vigdísar Finnbogadóttur, en hún afhenti kúluna með þeim orðum að Kolbrún Dögg berðist af jákvæðni og kjarki fyrir breyttum viðhorfum og fyrir samfélagi sem einkenndist af umburðarlyndi, virðingu og réttlæti þar sem allir gætu tekið þátt og notið sín á eigin forsendum. Við athöfnina söng Kolbrún Dögg eigið ljóð, Streymi, við lag eftir eiginmann sinn Ragnar Gunnar Þórhallsson. 


2008 Gjörningaklúbburinn – Halaleikhópurinn

Halaleikhópurinn hlaut Kærleikskúluna árið 2008 og tók Guðný Alda Einarsdóttir við kúlunni fyrir hönd hópsins. Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhúsins afhenti kúluna. Halaleikhópurinn fæst við leiklist á forsendum hvers og eins og hefur þannig á vissan hátt opnað nýja vídd í starfi leikhópa hér á landi. Leikhópurinn er skipaður fötluðum sem ófötluðum leikurum og hefur það að markmiði að iðka leiklist fyrir alla. Leikhópurinn hlaut á árinu þá eftirsóttu viðurkenningu "Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2007-2008" að mati Þjóðleikhússins og var sýningin í kjölfarið sett upp á svið leikhússins. Með þessu sönnuðu þau sem að Halaleikhópnum standa enn frekar að fötlun er á engan hátt hindrun þegar kemur að listsköpun. 


2009 Hreinn Friðrinnsson – Embla Ágústsdóttir

Embla Ágústsdóttir hlaut Kærleikskúluna 2009 en hún tók við henni úr hendi Maríu Ellingsen leikkonu. María er móðir barns sem nýtt hefur dvölina í Reykjadal og var gaman að heyra hversu jákvæða reynslu þær mæðgur höfðu af dvölinni.
Embla er sannarlega verðug fyrirmynd en hún hefur á engan hátt látið hreyfihömlun sína hindra sig í að lifa lífinu til fulls og ná háleitum markmiðum sínum í námi og starfi. Með því að miðla af reynslu sinni og lífssýn hefur hún unnið að því að breyta viðhorfum til fatlaðra og fengið fólk til að skilja að þó að hreyfihömlun sé sannarlega áskorun þá sé hún ekki endilega hindrun eða afsökun. Embla hélt áhrifamikla ræðu við þetta tækifæri þar sem fram kom að þær hindranir sem fatlaðir mæta orsakist ekki síst af takmörkuðum skilningi og skorti á trú á hæfni fólks með fötlun.


2010 Katrín Sigurðardóttir – Valgerður Jónsdóttir og bjöllukórinn

Tónstofa Valgerðar og Bjöllukórinn voru handhafar Kærleikskúlunnar árið 2010. En Valgerður hefur með óeigingjörnu starfi sínu gefið fjöldanum öllum af nemendum með sérþarfir kost á að njóta tónlistarnáms og þannig endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Bjöllukórinn hefur í þau ár sem hann hefur verið starfandi gefið þeim sem í honum eru mikla gleði og ekki síður þeim sem hafa notið þeirrar gæfu að hlýða á hann.


2011 Yoko Ono – Leifur Leifsson

Kærleikskúlan árið 2011 var afhent  við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur og var það Leifur Leifsson sem hlaut Kærleikskúluna. Leifur fór fyrstur manna í hjólastól upp á Esjuna og naut þar aðstoðar ófatlaðra einstaklinga. Einnig fór hann á eigin handafli í sérútbúnum hjólastól upp á Snæfellsjökul. Leifur hlaut Kærleikskúluna fyrir að vera verðug fyrirmynd og fyrir að hafa breytt viðhorfum til fatlaðra í samfélaginu. 


2012 Hrafnhildur Arnardóttir – Jón Margeir Sverrisson

Handhafi Kærleikskúlunnar árið 2012 var Jón Margeir Sverrisson, sundkappi og ólympíumethafi. Jón Margeir tók við kúlunni úr hendi Kristínar Rósar Hákonardóttur afrekskonu sem hefur margoft hlotið gullverðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra. 


2013 Ragnar Kjartansson – Hrefna Haraldsdóttir

Hrefna Haraldsdóttir var handhafi Kærleikskúlunnar árið 2013. Hrefna hefur unnið að málefnum fatlaðra í um 50 ár en hún lét af störfum sem foreldraráðgjafi árið 2013 sökum aldurs. Hrefna hefur í gegnum árin aðstoðað fatlaða og aðstandendur þeirra og gjarnan gert miklu meira í þeim efnum en af henni hefur verið ætlast. Hrefna tók við kúlunni úr hendi Haralds Ólafssonar, en hann er einn þeirra fjöldamörgu sem hún hefur veitt stuðning og aðstoð. 


2014 Davíð Örn Halldórsson – Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur

Handhafar Kærleikskúlunnar árið 2014 voru systurnar Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur. Þær hafa þrátt fyrir ungan aldur verið mjög virkar í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Þær hafa m.a. skrifað greinar, komið fram í fjölmiðlum og notað samfélagsmiðla til að vekja athygli á baráttu sinni. Þannig hafa þær verið öðru fötluðu fólki mikilvæg hvatning og fyrirmyndir. 


2015 Ragna Róbertsdóttir – Ólafur Ólafsson

Ólafur Ólafsson formaður íþróttafélagsins Aspar, sem rekur umfangsmikla íþróttastarfsemi fyrir fatlað fólk, hlaut Kærleikskúluna árið 2015. Ólafur hefur verið starfandi formaður í fjöldamörg ár og hefur alla tíð unnið launalaust en af ótrúlegum krafti og ósérhlífni. Hann hefur verið óþreytandi í baráttu sinni fyrir því að auka framboð á íþróttagreinum sem standa einstaklingum með fötlun til boða. Framlag hans til íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi hefur verið einstakt og ómetanlegt.  


2016 Sigurður Árni Sigurðsson – Peggy Helgason

Peggy Oliver Helgason hlaut Kærleikskúluna árið 2016. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Peggy kúluna við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum sem þakklætisvott fyrir starf hennar. Peggy hefur stutt langveik og fötluð börn með ýmsum hætti. Í ríflega tuttugu ár hefur hún mætt í trúðsgervi á Barnaspítala Hringsins til að skemmta þeim börnum sem þar dvelja. Þar fær hún bæði börn og starfsfólk spítalans með sér í leik og er í senn fyndin og kærleiksrík. Þá var Peggy  einnig forsprakki þess að Vildarbarnasjóður Icelandair var stofnaður ásamt eiginmanni sínum Sigurði Helgasyni, stjórnarformanni Icelandair Group og fyrrum forstjóra Flugleiða. Sjóðurinn styrkir langveik börn og börn sem búa við sérstakar aðstæður til ferðalaga. Þá hafa þau hjónin hafa um árabil styrkt bæði langveik og fötluð börn með fjárframlögum. Til að mynda hafa þau greitt fyrir dvöl nokkurra barna í sumarbúðunum í Reykjadal.

 

2017 Egill Sæbjörnsson – Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hlaut Kærleikskúlu ársins 2017, Ūgh & Bõögâr, eftir Egil Sæbjörnsson fyrir mikilvægt framlag í þágu fatlaðs fólks. Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar hlaut Kærleikskúluna vegna samkomulags sem skrifstofan gerði við Landssamtökin Þroskahjálp vegna notendaráðs fatlaðs fólks. Það var mat stjórnar Styrktarfélagsins að Mannréttindaskrifstofan hafi með samningnum sýnt mikilsverðan skilning og vilja til þess að tryggja að raddir fólks með þroskahömlun heyrist og að það fái þannig raunverulegt tækifæri til að taka þátt í að móta samfélagið. Það er mikilvægt atriði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að haft sé samráð við fatlað fólk þegar taka á ákvarðanir um stöðu þeirra með viðeigandi aðlögun.

2018 Elín Hansdóttir - Anna Karólína Vilhjálmsdóttir

Anna Karólína hefur í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Special Olympics og þróunarsviðs Íþróttasambands fatlaðra á Íslandi unnið ötult starf í þágu fatlaðra og stutt við og eflt íþróttaiðkun þeirra. Anna Karólína  hefur farið út fyrir venjubundnar starfslýsingar og lagt áherslu á að hlustað sé á skoðanir íþróttafólks og iðkenda. Þá hefur hún verið einkum hugmyndarík og hrint því í framkvæmd að enn fleiri tækifæri yrðu opnuð einstaklingum með hreyfihömlun á sviðinu, með því að hugsa út fyrir rammann og með því að leitast sérstaklega eftir nýjungum í tækni og í íþróttaheiminum. Einlægur áhugi hennar og framtakssemi sýna vel gildin sem ríkja einnig í Reykjadal, að ekkert sé ómögulegt.